Erlent

Var týnda skipið í smyglferð?

Arctic Sea.
Arctic Sea. MYND/AFP

Enn hefur ekkert spurst til flutningaskipsins Arctic Sea sem hvarf á Ermasundi fyrir hálfum mánuði. Rússneski flotinn skipuleggur nú leitina að skipinu en málið þykir allt hið dularfyllsta.

Síðast heyrðist til skipsins á Ermarsundi en nokkru áður hafði hópur manna ráðist um borð og bundið áhöfnina. Mennirnir yfirgáfu síðan skipið og tilkynnti skipstjórinn um málið til eigenda skipsins. Byssumennirnir höfðu sagst vera sænskir lögreglumenn og ákvað skiptstjórinn að sigla áfram eftir að áhöfninni hafði verið sleppt.

Nokkrum dögum síðar hvarf skipið og hefur ekkert spurst til þess síðan. Samkvæmt farmskýrslum er skipið fullt af finnsku timbri sem sigla átti með til Alsír en nú telja rannsakendur líklegt að um smyglskip hafi verið að ræða og að um borð hafi verið vopn eða eiturlyf. Mennirnir sem réðust um borð hafi þá vitað af þessum leynilega farmi og með einhverjum hætti náð stjórn á skipinu.

Nú er talið líklegast að skipinu hafi verið stefnt að vesturströnd Afríku. Það sem rennir stoðum undir þessa kenningu er sú staðreynd að áður en skipið kom til Finnlands til þess að sækja timbur hafði það verið í slipp í rússnesku borginni Kaliningrad sem fræg er fyrir smygl á varningi af ýmsum toga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×