Erlent

Káfaði á brjóstunum á Mínu Mús

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Disney kastalinn víðfrægi.
Disney kastalinn víðfrægi.

Sextugur maður hefur verið sakfelldur fyrir að káfa á konu í Mínu Músar búningi í Disney skemmtigarðinum á Flórída.

John William Moyer hélt fram sakleysi sínu fyrir dómstólum, en sonur mannsins bar einnig þess vitni að faðir hans myndi aldrei snerta konu á óviðeigandi hátt, að því er bandaríska dagblaðið Orlando Sentinel segir frá.

Fórnarlambið hélt því hinsvegar fram að það hafi þurft að beita öllum mögulegum brögðum til að halda lúkunum á Moyer frá barminum á sér.

Maðurinn var sakfelldur fyrir minniháttar líkamsárás og var dæmdur til að skrifa fórnarlambinu afsökunarbréf, halda 180 daga skilorð og vinna fimmtíu klukkustundir í samfélagsþjónustu.

Þá þurfti hann einnig að greiða sakarkostnað og mun hugsanlega gangast undir sálfræðimat. Þetta var fyrsta brot mannsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem teiknimyndafígúrur Disneygarðsins eru í kastljósinu vegna kynferðislegrar áreitni, en árið 2004 var maður í gervi Tuma tígurs sakaður um að káfa á þrettán ára stúlku. Sá var hinsvegar hreinsaður af öllum sökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×