Innlent

Lögreglukórinn fagnar afmæli sínu með tónleikum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri. Mynd/ GVA.
Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri. Mynd/ GVA.
Lögreglukór Reykjavíkur ætlar að blása til tónleika í Laugarneskirkju næstkomandi laugardag til að fagna 75 ára afmæli kórsins. Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri og kórfélagi, segir að kórinn hafi verið stofnaður í mars 1934 en ekki hafi gefist tími til að halda upp á afmælið fyrr vegna annríkis fyrr á árinu. Nú standi hins vegar til að halda tónleika þar sem kórinn ætli að flytja sýnishorn af dagskránni undanfarin ár.

„Þetta er náttúrlega karlakór þannig að í gegnum tíðina hefur þetta verið hefðbundin karlakóratónlist. En svona í tíð núverandi stjórnanda höfum við verið að prófa okkur áfram með léttari tónlist, jafnvel dægurlög og höfum gefið út tvo diska, ´99 og 2005," segir Hörður. Á diskunum megi finna klassík og jafnvel popplög.

Um 30 manns eru í kórnum og Hörður segir ýmislegt vera framundan þegar afmælistónleikunum lýkur. „Við erum farnir að huga að næsta diski og síðan hföum við tekið þátt í samstarfi norrænna lögreglukóra sem halda mót á fjögurra ára fresti," segir Hörður. Íslenski kórinn hafi haldið mót 2004 og ráðgert sé að halda mót í Danmörku næst. Það fari líklegast fram árið 2013.

Afmælistónleikar Lögreglukórsins hefjast klukkan fjögur á laugardaginn. Miðasala verður við innganginn og er aðgangseyrir 1500 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×