Innlent

Bankasýsla ríkisins tekur til starfa

Mynd/GVA
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur skipað í stjórn Bankasýslu ríkisins og hefur hún formlega tekið til starfa. Bankasýslu ríkisins er ætlað að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Eitt af fyrstu verkum stjórnarinnar verður að ráða forstjóra fyrir stofnunina.

Það er mat fjármálráðherra að í nýskipaðri stjórn búi staðgóð og breið þekking á viðfangsefnum Bankasýslu ríkisins enda uppfylli stjórnarmenn þau hæfnisskilyrði sem kveðið er á um í lögum um hana, að fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Í stjórn Bankasýslu ríkisins eru skipuð þau Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur, stjórnarformaður, Sonja María Hreiðarsdóttir, lögmaður, varformaður, Sigurður B. Stefánsson, hagfræðingur og Guðrún Johnsen, hagfræðingur, til vara. Skipun þeirra er ótímabundin, en Bankasýslan skal hafa lokið störfum eigi síðar en 5 árum eftir að hún er sett á fót.

Fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins að meðal fyrstu verkefna stjórnarinnar verður að auglýsa starf forstjóra Bankasýslu ríkisins laust til umsóknar og að skipa í valnefnd sem ætlað er að velja fulltrúa í stjórn fjármálafyrirtækja sem stofnunin fer með eignarhald á.

Bankasýsla ríkisins skal samkvæmt lögum leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×