Enski boltinn

Hughes bjartsýnn á að landa De Jong

De Jong er 24 ára gamall varnartengiliður
De Jong er 24 ára gamall varnartengiliður NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol þjálfari HSV í Þýskalandi hefur viðurkennt að fátt geti komið í veg fyrir að hollenski landsliðsmaðurinn Nigel De Jong gangi í raðir Manchester City á Englandi.

Þýska félagið staðfesti í síðustu viku að City hefði gert tilboð í leikmanninn og nú segja breskir fjölmiðlar að gengið verði frá kaupunum á næstu tveimur dögum.

Sagt er að verðmiðinn á miðjumanninum gæti verið allt að 18 milljónir punda.

"Ég hef mætur á þessum leikmanni og ég held að hann myndi hjálpa okkur ef hann kæmi hingað," sagði Hughes í samtali við staðarblöð í Manchester.

Martin Jol segir þróun mála vera hluta af því að vera í bransanum og virðist vera búinn að sætta sig við að missa landa sinn til Englands.

"Ég sætti mig við að Nigel sé að fara. Þetta er ekkert nýtt fyrir mig sem þjálfara, svo þetta hefur ekki áhrif á dagleg störf okkar," sagði Jol, sem áður var stjóri Tottenham í úrvalsdeildinni ensku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×