Innlent

Íslensk ungmenni á loftlagsráðstefnu í Kaupmannahöfn

Strikið, Kaupmannahöfn.
Strikið, Kaupmannahöfn.

Tveir fulltrúar íslenskra ungmenna halda á ráðstefnu barna um loftslagsmál sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Kaupmannahafnarborg halda í Kaupmannahöfn viku fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP15). Á ráðstefnunni verður m.a. unnin ályktun sem lögð verður fyrir á COP15 samkvæmt tilkynningu.

Í tilkynningunni segir ennfremur:

UNICEF á Íslandi sendir tvö íslensk ungmenni á ráðstefnuna. Þau eru Einar Ragnar Jónsson, 17 ára, og Sædísi Ósk Helgadóttir, 16 ára. Einar Ragnar og Sædís Ósk hafa kynnt sér áhrif loftslagsbreytinga hér á landi og unnið kynningarefni um það fyrir aðra ráðstefnugesti. Að ráðstefnunni lokinni heita þátttakendur því að gerast „sendiherrar umhverfisins" í heilt ár í sínu heimalandi með það fyrir augum að deila þeirri þekkingu sem þeir afla sér á CCFC09 með sem flestum.

Um miðjan desember munu leiðtogar heimsins hittast í Kaupmannahöfn á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP15) til að ræða loftslagsbreytingar og til að reyna að ná samkomulagi um hvernig eigi að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Útkoma fundarins mun hafa gríðarleg áhrif á möguleika jarðarbúa til að takast á við þær áskoranir sem breytingar á loftslagi hafa í för með sér. Í tilefni af þessum fundi hafa UNICEF og Kaupmannahafnarborg tekið höndum saman um að efna til ráðstefnu barna og ungmenna í aðdraganda COP15 þar sem einnig verður fjallað um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, en frá sjónarhorni þeirra sem erfa munu heiminn.

160 fulltrúar frá 44 löndum munu sækja ráðstefnuna sem ber titilinn Children's Climate Forum Copenhagen 2009 (CCFC09) og stendur yfir frá 30. nóvember til 5. desember. Meginhlutverk ráðstefnunnar er að ljá börnum og ungmennum rödd í umræðunni um loftslagsbreytingar. Þátttakendur munu deila reynslu sinni og upplýsingum frá heimalandinu, fræðast um aðgerðir og aðstæður barna víðs vegar í heiminum og öðlast þannig betri heildarsýn á áhrif lofstlagsbreytinga. Á ráðstefnunni verður unnin ályktun með tillögum til aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum. Sú ályktun verður lögð fyrir á COP15 ráðstefnunni síðar í mánuðinum með aðkomu UNICEF.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×