Erlent

Vopna- og fíkniefnabirgðir hjá Vítisenglum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AFP

Skotvopn, táragas og fíkniefni er meðal þess sem fundist hefur í umsvifamikilli húsleit dönsku lögreglunnar hjá nokkrum útibúum vélhjólasamtakanna Vítisengla í Danmörku.

Ráðist var til inngöngu á tæplega 20 stöðum samtímis, jafnt í Kaupmannahöfn sem annars staðar í Danmörku, og urðu heimturnar slíkar að engu er líkara en Vítisenglarnir búi sig undir sjálf ragnarök Völuspár.

Enginn skortur var á bareflum og hnífum af ýmsum stærðum og gerðum en auk þeirra höfðu englarnir birgt sig upp af skotvopnum, piparúða og táragasi. Auk leitar hjá Vítisenglunum sjálfum var farið inn í félagsheimili svokallaðra AK-81-samtaka sem eru eins konar stuðningssamtök en þau stunda væntanlegir Vítisenglafélagar sem enn eru að læra fagið.

Námið virðist nokkuð stíft því hjá þeim félögum í AK-81 fannst heilmikið magn af amfetamíni og maríjúana auk hefðbundins vopnabúrs. Lögreglan segist hafa skipulagt aðgerðina í rúma viku og nú taki við heilmikil vinna við að telja og skrá allt góssið sem hald var lagt á. Þrír voru handteknir við aðgerðina og munu þeir væntanlega þurfa að gera grein fyrir meðal annars því hvaða heimsstyrjöld englar vítis hafi verið að búa sig undir með vopnasöfnuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×