Innlent

Illugi er ánægður með nýja ritstjóra Morgunblaðsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Illugi Gunnarsson segir að forysta Sjálfstæðisflokksins þurfi alls ekki að hafa áhyggjur af ráðningu Davíðs.
Illugi Gunnarsson segir að forysta Sjálfstæðisflokksins þurfi alls ekki að hafa áhyggjur af ráðningu Davíðs.
„Mér líst mjög vel á þetta," segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður sjálfstæðismanna og fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs Oddsonar, um ráðningu Haraldar Johannessen og Davíðs Oddssonar sem ritstjóra Morgunblaðsins. „Haraldur og Davíð eru báðir menn með sterkar skoðanir en ég held að þeir muni reka þennan miðil mjög faglega," segir Illugi.

Illugi segir að íslenskt samfélag þurfi hreinskilin og opin skoðanaskipti. „Með því að þessir tveir menn koma þarna inn á Morgunblaðið er ég sannfærður um það að þetta verður til eflingar pólitískri umræðu í samfélaginu," segir Illugi. Hann segir vel geta verið að mörgum muni ekki líka það sem nýju ritstjórarnir hafa fram að færa. „En svo eru aðrir sem verða mjög ánægir," segir Illugi. Aðalatriðið sé að sjónarmið þessara manna hafi þarft erindi inn í umræðuna.

Ýmsir, þar á meðal samfélagsrýnirinn Egill Helgason, hafa bent á að þeir sem ættu helst að hafa áhyggjur af ráðningu Davíðs Oddsonar væri forysta Sjálfstæðisflokksins. Þessu er Illugi ekki sammála. „Þeir sem hafa talað um þetta hafa fæstir verið einhverjir sérstakir vinir sjálfstæðisflokksins þannig að þessar áhyggjur eru ekki neitt sem ég tel að skipti máli," segir Illugi. Hann segist telja að það sé gott fyrir borgaraleg sjónarmið í landinu að þau hafi öfluga málsvara.

„Sjálfstæðisflokkurinn er málsvari borgaralegra sjónarmiða. Morgunblaðið undir stjórn þessara manna er líka öflugur málsvari borgaralegra sjónarmiða. Og það getur ekki verið að það sé vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn að það bætist við og sé þarna öflugur liðsmaður við þau sjónarmið sem Sjálfstæðisflokkurinn er að berjast fyrir," segir Illugi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×