Innlent

Umhverfisráðherra telur að Jóhanna þurfi að skýra orð sín

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þurfi að útskýra ummæli sín um Suðvesturlínu sem hún lét falla í ræðu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær. Ummæli Jóhönnu falla grýttan jarðveg hjá þingmönnum Vinstri grænna.

„Ég er sannfærð um að öllum hindrunum í vegi Suðvesturlínu, sem er forsenda fyrir þróun orkuháðs iðnaðar á þessu svæði, verði rutt úr vegi þannig að framkvæmdir við hana geti hafist á næsta sumri. Forráðamenn Norðuráls segja nú að framkvæmdir við álver í Helguvík fari á fullt í vor og það mun skapa mikla atvinnu. Ég hef einnig góðar vonir um að vinna við Búðarhálsvirkjun hefjist með vorinu en orku frá henni verður að verulegu leyti ráðstafað til endurnýjaðs álvers í Straumsvík," sagði Jóhanna Sigurðardóttir á fundi með samfylkingarmönnum á morgun.

Jóhanna gat varla kveðið skýrar að orði í ræðu sinni í gær. Ummælin féllu hins vegar í mjög grýttan jarðveg hjá, samstarfsflokknum, Vinstri grænum. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, sagði í samtali við fréttastofu í dag að forsætisráðherra þyrfti að skýra ummæli sín áður en hún gæti tjáð sig um þau. Þingmenn Vinstri grænna sem fréttastofa ræddi við í dag sögðu að ummæli Jóhönnu um Suðvesturlínu væru undarleg og óheppileg. Málið væri til umfjöllunar í umhverfisráðuneytinu og ráðherra þess ráðuneytis tæki ákvörðun um hvort Suðvesturlína færi í heildstætt umhverfismat eður ei.

Í tillögum Vinstri grænna í atvinnumálum, sem kynntar voru fyrir síðustu kosningar, útlista vinstri grænir að þeir vilji skapa rúmlega fjögur þúsund störf í ferðaþjónustu, þrjú þúsund störf í framleiðslugreinum, tvö þúsund störf tengd nýsköpun og sprotastarfsemi og fjögur þúsund afleidd störf í þjónustugeirum. Þar er ekki einu orði minnst á störf tengd stóriðju, enda eru stóriðjuframkvæmdir ekki efst á baugi hjá vinstri grænum og ríma fremur illa við umhverfisáherslur flokksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×