Lífið

Grænlenskt reggí til Íslands

Randi Broberg. Tónleikar Liima Inui í Norræna húsinu verða lokaatriði Vetrarhátíðar í Reykjavík. mynd/lars wittindorff
Randi Broberg. Tónleikar Liima Inui í Norræna húsinu verða lokaatriði Vetrarhátíðar í Reykjavík. mynd/lars wittindorff

Tónleikar grænlensku reggí-poppsveitarinnar Liima Inui verða lokaatriði Vetrarhátíðar í Reykjavík á laugardagskvöld. Hljómsveitin þykir sérlega athyglisverð á sviði og er þekkt fyrir að ná upp magnaðri stemningu á tónleikum.

„Við erum mjög spennt," segir söngkonan Randi Broberg, sem kom síðast til Íslands fyrir fimm árum þegar grænlensk menningarhátíð var haldin hér.

Liima Inui hefur gefið út tvær plötur í heimalandi sínu á fimmtán ára ferli og hlaut sú síðari sérlega góðar viðtökur. Sveitin er nokkuð óvenjuleg því hún blandar tilraunamennsku og rokki saman við reggíið og poppið. „Það eru margar hljómveitir á Grænlandi en okkar tónlist er frekar óhefðbundin," segir Randi. „Næsta plata verður líka mjög frábrugðin þeirri síðustu. Hún verður tilraunakenndari og rokkaðri því núna þurfum við ekki að hafa eins miklar áhyggjur því við erum þegar orðin vinsæl."

Upptökur á plötunni hefjast á mánudag og að sögn Randi verður umfjöllunarefnið aukið sjálfstæði Grænlands.

Liima Inui spilaði í Tívolíinu í Kaupmannahöfn síðasta sumar og ætlar að endurtaka leikinn núna í sumar. Einnig er hljómsveitin að íhuga að byrja að syngja á ensku í von um að stækka aðdáendahóp sinn enn frekar.

Tónleikarnir á laugardag hefjast klukkan 22 og fara fram í Norræna húsinu. - fb




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.