Erlent

Niðurtalning til stríðs í Asíu

Óli Tynes skrifar

Japanar segjast reiðubúnir að skjóta niður langdræga eldflaug sem Norður-Kórea segist ætla að skjóta út á Kyrrahafið.

Norður-Kóreumenn eru bæði að smíða kjarnorkusprengjur og langdrægar eldflaugar. Það veldur miklum óróa bæði meðal nágranna þeirra og á Vesturlöndum.

Ástæðan fyrir því að Japanar bregðast svona hart við er sú að eldflaug sem er skotið frá Norður-Kóreu út á Kyrrahaf fer yfir land þeirra. Það geta þeir enganvegin sætt sig við.

Norður-Kóreumenn segja að eldflaugaskotið sé liður í friðsamlegri geimferðaáætlun þeirra. Þegar fram líði stundir eigi að nota eldflaugina til þess að skjóta fjarskiptahnetti á braut um jörðu.

Þessu hafna Japanar. -Við munum taka á móti öllu sem flýgur í áttina til okkar, sagði varnarmálaráðherra Japans. -Við erum reiðubúnir til þess að mæta hverskonar neyðarástandi.

Forsætisráðherra Japans tók í sama streng. Hann sagði að Norður-Kóreumenn gætu kallað þetta fjarskiptahnött eða hvað sem þeir vildu.

Þetta væri brot á samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006 sem bannar Norður-Kóreu að skjóta heimsálfu eldflaugum.

Kóreumenn segjast munu skjóta eldflaug sinni einhverntíma á milli annars og áttunda apríl. Ef Japanar skjóti niður flaugina sé hafin niðurtalning að stríði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×