Erlent

Bíræfnir skartgripaþjófar í London

Lögreglan á Bretlandseyjum leitar nú logandi ljósi að þjófum sem komust undan með gimsteina að andvirði um átta milljarða íslenskra króna en um er að ræða stærsta gimsteinarán í breskri sögu.

Tveir menn rændu gimsteinaverslun í Mayfair hverfinu í London síðastliðinn fimmtudag. Breskir miðlar hafa nú birt myndir af mönnunum úr öryggismyndavélum verslunarinnar auk þess sem vegfarendur tóku myndir af því þegar mennirnir lögðu á flótta eftir verknaðinn.

Mennirnir gengu rakleitt inn í verslunina klæddir í jakkaföt og gerðu enga tilraun til að hylja andlit sín. Þegar inn var komið ógnuðu þeir starfsfólki með skammbyssum og tóku skartgripi sem metnir eru á um 40 milljónir punda sem jafngilda um átta milljörðum íslenskra króna.

Að því búnu tóku þeir starfsstúlku verslunarinnar í gíslingu, fóru út úr versluninni og skutu aðvörunarskotum í átt að versluninnni til þess að koma í veg fyrir eftirför. Þeir slepptu síðan konunni og óku á brott á ofsahraða á bláum BMW.

Flóttaleiðin virðist hafa verið vel skipulögð og virðast þeir hafa skipt margsinnis um bíla með stuttu millibili til þess að villa um fyrir lögreglunni sem lýsir nú eftir fólki sem getur borið kennsl á mennina af myndunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×