Innlent

Stefnir í að lögreglumönnum fækki í maí

Lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu var fjölgað tímabundið um 20 manns í janúar. Ekki hefur fengist fjárveiting til að endurráða lögreglumennina.Fréttablaðið/Vilhelm
Lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu var fjölgað tímabundið um 20 manns í janúar. Ekki hefur fengist fjárveiting til að endurráða lögreglumennina.Fréttablaðið/Vilhelm

 Lögreglustjórinn á höfuð-borgarsvæðinu hefur tilkynnt 20 lögreglumönnum sem ráðnir voru tímabundið í janúar síðastliðnum að samningar þeirra verði að óbreyttu ekki endurnýjaðir þann 15. maí.

Lögreglumennirnir voru ráðnir með sérstakri fjárveitingu í janúar, þegar svokölluð búsáhaldabylting stóð sem hæst. Ráðningarsamningar lögreglumannanna hafa verið endurnýjaðir tvisvar síðan.

Fáist ekki aukin fjárveiting fækkar starfandi lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu því um 20 um miðjan maí. Í dag eru um 300 lögreglumenn starfandi hjá embættinu, þar af um 100 sem ganga vaktir.

„Við höfum gert ráðuneytinu grein fyrir stöðunni, eins og við höfum gert frá áramótum,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að til þessa hafi engin viðbrögð komið frá ráðuneytinu, en segir ráðherra hafa skilning á þörf embættisins fyrir þessa starfsmenn.

Það segir sig sjálft að óheppilegt er að fækka lögreglumönnum, og að brotthvarf svo margra mun auka byrðar annarra lögreglumanna, segir Stefán.

Málið er nú til skoðunar innan dómsmálaráðuneytisins, segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra í tölvubréfi til Fréttablaðsins. Hún segir lögreglumennina 20 hafa sent sér erindi vegna málsins, auk þess sem lögreglustjóri hafi tekið málið upp.

Ragna segir að tekin verði ákvörðun í þessu máli í kjölfar fundar með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í kringum mánaðamót. Þar verði farið yfir fjármál embættisins í heild sinni.

„Við höldum í vonina að það finnist einhverjir peningar,“ segir Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur.

Það mun breyta miklu fyrir aðra lögreglumenn hverfi 20 félagar þeirra frá störfum, segir Arinbjörn. Álagið muni þá dreifast á færri herðar. Þá sé óvissan auðvitað erfið fyrir lögreglumennina sem nú stefnir í að missi vinnuna.

„Við munum vinna í því að það fáist fjármagn til þess að halda þeim áfram inni. Það er auðvitað ólíðandi fyrir þetta fólk að búa við þetta óvissuástand,“ segir Arinbjörn.

Stefán Eiríksson segir aðspurður að engir sumarafleysingamenn verða ráðnir hjá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins í ár, ekki frekar en síðasta sumar.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×