Innlent

Skattalegar ástæður

„Þessi fyrirtæki eru hér af skattalegum ástæðum, þau greiða minni skatta en ef þau væru í Bretlandi," segir Baldvin Björn Haraldsson, hdl., sem á sæti í stjórnum DMG Lending og DMG Investments á Íslandi. Hann segir að starfsemi DMG fyrirtækjanna á Íslandi snúist um lánveitingar milli fyrirtækja innan DMG-samstæðunnar.

Baldvin Björn segist ekki vilja nota orðið „aflandsfélög" um þessa starfsemi, það orð hafi á sér neikvætt yfirbragð, tengt því að verið sé að leyna eignarhaldi og skjóta undan peningum. Svo sé alls ekki í tilvikum þessara félaga enda sé eignarhaldið skráð og allar upplýsingar aðgengilegar. Félögin hafi einfaldlega tekið til starfa hér til þess að nýta sér hagstætt skattaumhverfi í kjölfar skattalækkana og tvísköttunarsamninga.

Hann segist búast við að DMG-félögin hætti starfsemi fljótlega „af ástæðum sem varða móðurfélagið" en hvað sem því líður sé enginn vafi á því að félög af þessu tagi hverfi frá landinu ef skattar á fyrirtæki verða hækkaðir í samræmi við það sem nú er í umræðunni.

Baldvin Björn segir að fyrir utan miklar skatttekjur hafi íslenskt samfélag þann hag af starfsemi eins og þessari að hún skapi tekjur fyrir ýmsar þjónustugreinar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×