Innlent

Eldvarnareftirlitið fjarlægði eldfiman köngulóarvef

Dj. Drakúla. Hin lifandi dauða vampíra, Drakúla, mun skemmta blóðþyrstum gestum annað kvöld.
Dj. Drakúla. Hin lifandi dauða vampíra, Drakúla, mun skemmta blóðþyrstum gestum annað kvöld.

„Þeir kíktu hingað á miðvikudagsmorgninum og sáu þá köngulóarvefinn. Þeir eru sem betur fer að vinna vinnuna sína," segir Páll Óskar Hjálmtýsson en eldvarnareftirlitið tók út skemmtistaðinn NASA vegna skreytinga fyrir hrekkjavökuball ársins sem verður haldið annað kvöld.

Eldvarnareftirlitið gerði athugasemd við skuggalegan köngulóarvef sem hékk víðsvegar úr lofti og á veggjum skemmtistaðarins og setti draugalegan blæ á NASA.

„Á pakkningunum stóð að þetta væri ekki eldfimt svo bráðnaði þetta bara," segir Páll Óskar en eldvarnareftirlitsmaðurinn fór með vefinn út á Austurvöll og sýndi Páli hvað myndi gerast ef eldur læsti sig í þessum stórhættulega köngulóarvefi.

„Þetta var sem betur fer ekki veigamikill þáttur í skreytingunni," segir Páll Óskar en vefurinn var fjarlægður hið snarasta þegar í ljós kom að þarna var um raunverulega hættu að ræða.

Páll Óskar segir að aðrar skreytingar hafi staðist árvökult auga eldvarnareftirlitsmannsins og var skreytt í fullu samráði við hann. Páll Óskar segir að þessi aðfinnsla muni ekki hafa nein áhrif á draugastemmninguna sem hann hyggst skapa á laugardagskvöldinu.

„Það er komin heil fjölskylda af draugum sem ætlar að svífa um salinn, yfir hausamótunum á gestum," segir Páll Óskar sem lofar góðri skemmtun.

Miðasala hófst á NASA klukkan 13:00 í dag og verður til 17:00. Húsið opnar svo klukkan 11 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×