Enski boltinn

Chelsea komið áfram í bikarnum

Salomon Kalou skoraði fyrir Chelsea í kvöld
Salomon Kalou skoraði fyrir Chelsea í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Chelsea er komið áfram í fjórðu umferð enska bikarsins eftir 4-1 útisigur á Southend í aukaleik í þriðju umferðinni í kvöld. Chelsea lenti undir 1-0 eftir stundarfjórðung, en bjargaði sér frá niðurlægingu með góðum síðari hálfleik.

Chelsea hefur ekki verið í miklu stuði upp á síðkastið og um tíma í kvöld leit út fyrir að enn ætlaði að auka á ógæfu Luiz Scolari og félaga.

Michael Ballack jafnaði metin fyrir Chelsea á síðustu mínútu fyrri hálfleiks og Salomon Kalou kom gestunum yfir eftir slysaleg mistök í vörn heimamanna á 60. mínútu.

Eftir það var ekki spurning hvoru megin sigurinn lenti og þeir Nicolas Anelka og Frank Lampard bættu við mörkum á síðustu tólf mínútunum.

Hull er sömuleiðis komið áfram eftir góðan 1-0 sigur á Newcastle á útivelli. Það var Daniel Cousiin sem skoraði sigurmark nýliðanna í úrvalsdeildinni níu mínútum fyrir leikslok.

Loks vann Crystal Palace 2-1 sigur á Leicester og tryggði sér sæti í næstu umferð.

Aðeins einum leik er ólokið í þriðju umferðinni, en það er viðureign Doncaster og Cheltenham sem fram fer í næstu viku.

Fjórða umferðin hefst síðan föstudaginn 23. janúar með leik Derby og Nottingham Forest, en umferðin klárast helgina 24. og 25. janúar.

Smelltu hér til að sjá leikjaplanið í ensku bikarkeppninni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×