Erlent

Þúsundir mótmæla meðferð á flóttamönnum í Kaupmannahöfn

Hópur íraskra flóttamanna hefur haft hæli í Brorsonkirkju undanfarið, en í fyrrinótt lét lögreglan til skarar skríða og rýmdi kirkjuna.
Mynd/IB Rasmussen
Hópur íraskra flóttamanna hefur haft hæli í Brorsonkirkju undanfarið, en í fyrrinótt lét lögreglan til skarar skríða og rýmdi kirkjuna. Mynd/IB Rasmussen

Danska lögreglan réðst snemma í gærmorgun inn í Brorsonkirkju í Kaupmannahöfn og handtók írakska flóttamenn, sem hafa haft þar afdrep undanfarið.

Tugir þúsunda komu saman í miðborg Kaupmannahafnar í gær til að mótmæla meðferðinni, sem mótmælendurnir hafa sætt. Svo virðist sem mörgum mótmælendanna svíði mest að kirkjugrið hafi verið rofin.

Samkvæmt vefsíðum danskra dagblaða gekk lögreglan hart fram, en sjálf segist lögreglan hafa reynt að forðast átök.

Írösku flóttamönnunum hefur öllum verið neitað um hæli í Danmörku, en ekki hefur verið hægt að vísa þeim heim til Íraks vegna ástandsins þar. Söfnuðurinn í Brorsonskirkju hefur skotið skjólshúsi yfir marga þeirra.

Einn þeirra íröksku flóttamanna, sem hafa hafst við í Brorsonkirkju, er Ali Nayef Rasoon, en hann á barn hér á Íslandi með íslenskri konu, Giovönnu Spanó. Svo vildi til að Ali Nayef var ekki í kirkjunni þegar lögreglan gerði innrás sína, og er hann nú í felum.

„Mér skilst að hann sé bara í felum, einhver mótmælendasamtök séu að hjálpa honum," sagði Giovanna í gær, en hann hringdi í hana í gærmorgun og leið þá að sögn hræðilega.

Hún segir að hann hafi verið flóttamaður í Danmörku í sjö ár, þar af hafi hann dvalist nokkrar vikur undanfarið í kirkjunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×