Enski boltinn

Peter Taylor: Mancini er einstaklega geðþekkur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Roberto Mancini.
Roberto Mancini.

Fyrsti leikur Manchester City undir stjórn Roberto Mancini verður á öðrum degi jóla þegar liðið leikur gegn Stoke. Sem leikmaður átti Mancini stutta viðveru í enska boltanum en það var með Leicester undir lok ferils hans 2001.

Mancini lék einungis fjóra leiki fyrir Leicester en Peter Taylor, knattspyrnustjórinn sem fékk hann til liðsins, segist hafa séð að Ítalinn hefði metnað í að gerast knattspyrnustjóri.

„Hann er einstaklega geðþekkur maður og var alltaf spyrjandi spurninga," segir Taylor. „Það var augljóst að hann stefndi á þjálfun og ég er viss um að hann geti gert góða hluti. Aftur á móti kom það mér á óvart að Mark Hughes hefði verið látinn fara."

„Þeir eru í sjötta sæti og ég tel það ekki slæma þróun hjá algjörlega nýju liði. Eftir eitt ár væri Mark kannski kominn með liðið á þann stað sem hann ætlaði sér. En því er ekki hægt að neita að ef ferill Mancini á Ítalíu er skoðaður þá lítur hann frábærlega út. Hann er einstaklega viðkunnalegur persónuleiki og leikmenn dýrkuðu hann hjá Leicester á sínum tíma."

Mancini stýrði Fiorentina og Inter í heimalandinu en hefur verið atvinnulaus síðan Jose Mourinho var ráðinn í hans stað hjá Inter. Mancini er 45 ára og sem leikmaður var hann sóknarmaður og lék 36 landsleiki fyrir Ítalíu.

Renzo Ulivieri, formaður þjálfarasamtaka Ítalíu, fagnar ráðningu Mancini til City. Segir hann þetta viðurkenningu fyrir þjálfaraheiminn á Ítalíu. „Það eru ekki mörg ár síðan ítalskir þjálfarar störfuðu nánast einungis í heimalandinu. Nú eru þeir eftirsóttir um allan heim og sýnir það gæði og sterkan skóla ítalska boltans," sagði Ulivieri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×