Íslenski boltinn

Heimir: Þetta eru blendnar tilfinningar

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.

Það var bjart yfir Heimi Hallgrímssyni þjálfara ÍBV, eftir sigur hans manna gegn Fjölni á Fjölnisvelli í kvöld. Tilfinningarnar voru engu að síður blendnar þar sem tveir lykilmenn Eyjamanna fengu að líta rauða spjaldið í kvöld. Bjarni Rúnar Einarsson strax á 17. mínútu og Tony Mawejje á þeirri 89. mínútu.



„Ég er alltaf glaður en auðvitað eru þetta blendnar tilfinningar. Ég vil ekki missa einn einasta leikmann í bann. Ef maður fær hinsvegar þrjú stig fyrir það þá kannski sættir maður sig við það," sagði Heimir. „Það er stórhættulegt að missa mann útaf svona snemma," sagði Heimir en sem fyrr segir fékk Bjarni Rúnar að líta rauða spjaldið á 17. mínútu. Tómas Leifsson var þá að sleppa í gegn en féll við eftir viðskipti sín við Bjarna. Garðar Örn Hinriksson sýndi honum rakleiðis rauða spjaldið. „Ég var mjög ósammála þessum dómi og ég vona að hann hafi rétt fyrir sér hans vegna. Því annars eru þetta hrikaleg mistök og hefðu í raun átt að kosta okkur sigurinn," sagði Heimir.

Um spjaldið sem Tony Mawejje fékk að líta á 89. mínútu fyrir munnbrúk hafði Heimir þetta að segja: Þetta var bara kjánalegt spjald í lokin. Sem er nánast ófyrirgefanlegt hjá svona reyndum manni. Þetta eiga menn ekki að gera."

Þetta voru fyrstu stig Eyjamanna en jafnfram fyrstu mörk liðsins. „Við erum ekki búnir að vera síðri en andstæðingurinn nema á móti Stjörnunni, þá vorum við bara slakir. Þetta er ungt lið og auðvitað á það eftir að eiga slaka leiki en í hinum leikjunum fjórum erum við að minnsta kosti ekki búnir að vera síðri aðilinn. Okkur vantaði bara að skora og nú kom það."

Veðrið í Grafarvoginum í kvöld var leiðinlegt. Rok og rigning. Það ættu þó að heita kjöraðstæður hjá Eyjamönnum. Aðspurður hvort þeir hafi komið með það með sér svaraði tannlæknirinn Heimir léttur í bragði: „Nei ég held að það hafi verið hérna þegar við komum."








Tengdar fréttir

Ásmundur: Lélegt af okkar hálfu

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, var að vonum daufur í dálkinn að loknum leik Fjölnis og ÍBV þar sem hans menn lutu lægra haldi á heimavelli, 1-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×