Innlent

Fórnarlömb á Arnarnesi: Rólegri eftir handtökurnar

Valur Grettisson skrifar
Tveir menn ruddust inn á hjón á Mávanesi. Konan er rólegri eftir handtökurnar.
Tveir menn ruddust inn á hjón á Mávanesi. Konan er rólegri eftir handtökurnar.

„Ég er ótrúlega hress miðað við það sem á hefur gengið," segir kona á áttræðisaldri sem varð fyrir óhugnalegri árás á heimili sínu við Mávanes um helgina þegar fjórir einstaklingar tóku hana og eiginmann hennar til fanga á heimili þeirra. Búið er að handtaka þá sem tengdust málinu og hefur lögreglan farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Íbúar í hverfinu eru óttaslegnir vegna fréttanna.

Aðspurð hvort hún sé rólegri eftir að einstaklingarnir voru handteknir svarar konan: „Jú, okkur varð rórri vitandi af þeim á bak við lás og slá."

Árás fjórmenninganna var hrottafengin og það sló óhugur á Íslendinga að heyra af henni. Tveir hettuklæddir menn dingluðu dyrabjöllunni hjá þeim og ruddust svo inn þegar þau opnuðu hurðina. Mennirnir voru vopnaðir hnífi sem þeir ógnuðu þeim með. Mennirnir rændu heimili þeirra og hótuðu að skjóta þau. Þeir voru þó ekki vopnaðir skammbyssum.

Annar ræningjanna sló konuna í höfuðið, svo virðist sem það hafi verið gert í þeim tilgangi að rota hana. Það tókst ekki.

Alls héldu þeir hjónunum föngnum í tuttugu mínútur. Þeir skáru svo á símalínur og flúðu af vettvangi.

Hjónunum er brugðið enda árásin bæði hrottafengin og óhugnaleg. Konan kveinkar sér ekki mikið undan meiðslum en segist lurkum laminn eftir mennina.

Hún segir lögregluna hafa staðið sig með prýði en athygli vakti að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, fór sjálfur heim til þeirra og upplýsti hjónin um að fjórir höfðu verið handteknir vegna málsins.

„Maður verður að harka þetta af sér og vinna úr þessu," segir konan sem lítur björtum augum til framtíðar og lætur hina óhugnalegu árás ekki draga úr sér kjarkinn. Hún segir að þau hjónin séu dálítið vör um sig enda ráðist inn í heilagasta vígið - heimilið.

„Ég ætla bara að rétt vona að aðrir verði ekki fyrir þessu," segir konan að lokum.

Einstaklingarnir fjórir sem voru handteknir hafa verið úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald.

Sambærilegt mál hefur ekki komið upp í fjölda ára.




Tengdar fréttir

Ræningjanna á Arnarnesi enn leitað - vísbendingar borist

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er tveggja manna enn leitað sem rændu eldri hjón á Arnarnesi í gærkvöldi. Ránið var vopnað, harkalegt en hjónunum var haldið í gíslingu í rúmar tuttugu mínútur.

Arnarnesræningjarnir ófundnir

Enginn hefur enn verið yfirheyrður eða handtekinn og engar haldbærar vísbendingar hafa borist lögregu vegna mannanna tveggja, sem rændu roskin hjón á heimili þeirra á Arnarnesi í Garðabæ undir miðnætti í fyrrakvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×