Íslenski boltinn

Grétar Rafn: Auðvelt að hitta á svona stóran haus

Elvar Geir Magnússon skrifar
Grétar Rafn Steinsson var fyrirliði íslenska landsliðsins í kvöld.
Grétar Rafn Steinsson var fyrirliði íslenska landsliðsins í kvöld. Mynd/Anton

Grétar Rafn Steinsson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik gegn Georgíu en hann fann þá verk í hnénu. Fram að því hafði Grétar leikið fantavel og lagði upp fyrsta mark leiksins með glæsilegri fyrirgjöf.

„Ég hef verið að ná mér upp eftir veikindi og var að finna mig mjög vel í þessum leik. En stundum verður maður að vera skynsamur. Svona er fótboltinn og vonandi verð ég í góðu standi fyrir helgina," sagði Grétar en Bolton á leik gegn Portsmouth á laugardag.

„Það getur verið erfitt að missa stærstan hluta liðsins eins og við lentum í. Þá þurfa aðrir menn oft að grafa dýpra til að finna kraftinn. Maður fann það strax í upphitun að menn voru klárir í slaginn. Fullt af leikmönnum sem þurftu að sanna sig til að fá að vera með í næstu leikjum."

Grétar hrósaði Garðari Jóhannssyni sérstaklega. „Garðar stóð sig frábærlega. Hann sýndi það og sannaði að hann er næsti maður á eftir Heiðari (Helgusyni). Það eru margir leikmenn hjá okkur á síðustu metrunum og yngri leikmenn að banka á dyrnar," sagði Grétar.

„Það hefur sýnt sig í síðustu tveimur leikjum að framtíðin er björt og ef við höldum rétt á spilunum og höldum áfram að þora að spila fótbolta þá getum við farið að ná betri úrslitum en við höfum áður náð."

Fyrsta mark Íslands minnti mjög á markið sem Eiður Smári Guðjohnsen skoraði gegn Noregi en aftur átti Grétar frábæra fyrirgjöf. „Þetta var mjög keimlíkt markinu hjá Eiði, þegar menn eru með svona stóran haus þá er auðvelt að hitta á hann," sagði Grétar kíminn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×