Innlent

Tæplega hundrað frambjóðendur skiluðu ekki uppgjöri

Tæplega hundrað frambjóðendur sem tóku þátt í prófkjöri eða forvali vegna þingkosninganna í vor skiluðu ekki fjárhagslegu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar en frestur til þess rann út um helgina. Unnt er að beita fjársektum og jafnvel fangelsun, hunsi frambjóðandi viljandi að sniðganga lög um skil á fjárhagslegu uppgjöri.

Fyrr á þessu ári sendi Ríkisendurskoðun frambjóðendum í prófkjörum vegna þingkosninganna í vor bréf þar sem kallað var eftir umræddum upplýsingum. Þetta er gert eftir að lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda var breytt. Samkvæmt þeim er frambjóðendum, sem eyða meira en 300 þúsund krónum í framboð sitt, gert að skila fjárhagslegu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar. Öðrum sem eyða minna nægir að senda inn yfirlýsingu þess efnis.

Frestur til að skila inn uppgjöri eða yfirlýsingu rann út um helgina. Af samtals 318 frambjóðendum sem tóku þátt í prófkjöri eða forvali vegna kosninganna skiluðu einungis 226 upplýsingum um kostnað sinn til Ríkisendurskoðunar. 31 frambjóðandi hafði skilað endurskoðuðu uppgjöri en 195 undirritaðri yfirlýsingu um að kostnaður hefði ekki verið umfram 300 þúsund krónur.

Ríkisendurskoðun mun á næstunni vinna úr þeim upplýsingum sem henni hafa borist og í kjölfarið birta þær með samræmdum hætti, líkt og lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda kveða á um. Reiknað er með að þessi vinna muni taka einhvern tíma en stefnt er að því að birta samantekt í næsta mánuði.

Ríkisendurskoðun hefur ekki heimild til að beita viðurlögum, skili frambjóðandi ekki inn tilskyldum upplýsingum. Hins vegar er ákvæði í lögunum sem segir að hver sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn þeim geti átt von á fjársektum eða fangelsi, allt að 6 árum. Ríkisendurskoðun getur komið upplýsingum um vanskil til lögreglu, en refsivarslan er í höndum hennar. Lögin gera ekki ráð fyrir því að frambjóðandi geti sótt um frest til að skila inn umbeðnum gögnum.


Tengdar fréttir

Fjórðungur frambjóðenda hefur skilað uppgjöri

Aðeins lítill hluti frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjörum stjórnmálaflokkanna vegna alþingiskosninganna í vor hefur skilað fjárhagslegu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar. Samtals hafa 83 af 321 frambjóðendum skilað inn umræddum upplýsingum, eða rúmlega fjórðungur.

Aðeins þriðjungur hefur skilað uppgjöri

Aðeins þriðjungur frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjörum stjórnmálaflokkanna vegna alþingiskosninganna 25. apríl síðastliðinn hefur skilað fjárhagslegu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar. Samtals hafa 107 af 321 frambjóðendum skilað inn umræddum upplýsingum en skilafrestur rennur út 25. október. Ríkisendurskoðun flokkar skilin eftir stjórnmálaflokkum en ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort að birtur verði listi yfir þá frambjóðendur sem skila ekki uppgjöri til stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×