Innlent

Vill að Dagur biðjist afsökunar

Læknarnir Dagur B. Eggertsson og Ólafur F. Magnússon hafa verið bæði mót- og samherjar í gegnum tíðina. Hér afhendir Dagur Ólafi lyklavöldin í janúar 2008, eftir að Ólafur yfirgaf meirihlutann og hóf samstarf við sjálfstæðismenn.
fréttablaðið/valli
Læknarnir Dagur B. Eggertsson og Ólafur F. Magnússon hafa verið bæði mót- og samherjar í gegnum tíðina. Hér afhendir Dagur Ólafi lyklavöldin í janúar 2008, eftir að Ólafur yfirgaf meirihlutann og hóf samstarf við sjálfstæðismenn. fréttablaðið/valli

Dagur B. Eggertsson á að biðjast afsökunar á mistökum R-listans í skipulagsmálum, segir Ólafur F. Magnússon borgar­fulltrúi.

Hann hafi krafist þessa á fundi borgarstjórnar á þriðjudag, en Dagur engu svarað.

„Ég held ég hafi komið honum í opna skjöldu, ég get verið svolítið vondur við þessa ungu menn þegar ég er reiður,“ segir Ólafur.

Dagur hafi á fundinum rætt um peningaeyðslu fyrrverandi meirihluta Ólafs og sjálfstæðismanna vegna uppkaupa húsanna við Laugaveg.

„Þetta er þvílíkt bull, að þeir sem ætluðu að eyðileggja Laugaveginn, fari svo að saka þá, sem sneru því við, um peningaeyðslu,“ segir Ólafur.

Skipulagsmistök hinna hefði kostað mikið að leiðrétta. Húsin neðst á Laugavegi séu enda „Bernhöftstorfa okkar tíma“.

Ólafur nefnir „niðurrif nær allra gamalla húsa við Laugaveg“ sem dæmi um mistök sem R-listinn hafi stefnt í. Einnig fyrirhugað niðurrif Austurbæjarbíós og Höfðatorg.

„Þessari framsóknarverktakabílastæðahúsamenningu varð ekki snúið við nema með meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks,“ segir Ólafur. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×