Innlent

Leita leiða til að tryggja rekstur Strætós

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er stjórnarformaður  byggðasamlagsins Strætó.
Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er stjórnarformaður byggðasamlagsins Strætó.

Eigendur og stjórnendur Strætó bs. ætla að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtæksins, segir Jórunn Frímannsdóttir stjórnarformaður Strætó bs. „Það hefur aldrei verið meiri þörf fyrir þjónustuna en núna og við munum leita allra leiða til að koma í veg fyrir frekari skerðingu á þjónustunni."

Rekstrarniðurstaða Strætó fyrir árið 2008 var neikvæð um 352 milljónir króna sem er aukning um 81 prósent á milli ára en árið 2007 var hún neikvæð um 195 milljónir. Eiginfjárhlutfall er neikvætt um 57 prósent. Í umsögn borgarráðs kemur fram að ef um venjulegt fyrirtæki væri að ræða væri það ekki rekstrarhæft.

„Staðan er ofboðslega erfið eins og víða annars staðar í þjóðfélaginu," segir Jórunn.

Sveitarstjórnarmönnum hefur að undanförnu verði kynnt fjárhagsstaða Strætós bs. Jórunn segir að í hópi þeirra sé full eining um halda rekstri fyrirtækisins áfram.

Jórunn vill að ríkið komi að rekstri almenningssamgangna. Þá vonast hún til þess að fyrir sumarið muni liggja fyrir hvernig fjármögnun fyrirtækisins verði tryggð til frambúðar.

Strætó bs. er í eigu Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Seltjarnarneskaupstaðar og sveitarfélagsins Álftaness.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×