Innlent

Skattabreytingar í anda stefnu BSRB

Elín Björg Jónsdóttir Formaður BSRB óttast að óbætanlegt tjón kunni að verða á velferðarkerfinu.Fréttablaðið/vilhelm
Elín Björg Jónsdóttir Formaður BSRB óttast að óbætanlegt tjón kunni að verða á velferðarkerfinu.Fréttablaðið/vilhelm

BSRB krefst þess að ríkis­stjórnin endurskoði stefnu sína í niðurskurði ríkisútgjalda. Telja samtökin ríkisstjórnina fylgja stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þeim efnum en hún kunni að hafa í för með sér óbætanlegt tjón á velferðarkerfinu. Ályktun þessa efnis var samþykkt á aðalfundi BSRB í gær.

„Ef skorið verður jafn mikið niður og verstu spár segja til um held ég að óbætanlegt tjón geti orðið á heilbrigðiskerfinu og löggæslunni," segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. „Það eru þeir þættir velferðarkerfisins sem eru hvað viðkvæmastir fyrir miklum niðurskurði."

Ítrekað er að öflug opinber almannaþjónusta sé aldrei jafn mikilvæg og á krepputímum.

BSRB segir áform ríkisstjórnarinnar um þrepaskipt skattkerfi í samræmi við stefnu þess um tekjujöfnun enda sé bótakerfi ríkisins nýtt til kjarajöfnunar. Um leið er hvatt til þess að skattlagningu verði hagað á þann veg að hún stuðli að fjölgun starfa. Svokölluðum auðlegðarskatti er fagnað en varað er við umtalsverðum hækkunum á virðisaukaskatti, vörugjöldum og tollum.

„Slík skattheimta hækkar verðlag sem hefur áhrif á neysluverðsvísitöluna og leiðir til hækkunar á höfuðstól verðtryggðra lána," segir í ályktuninni. Að endingu hafnar aðalfundur BSRB alfarið öllum hugmyndum um skattlagningu inngreiðslna í lífeyrissjóði.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×