Fótbolti

Rakel byrjaði vel með Bröndby - skoraði eftir tólf mínútur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslendingarnir sem mættust í leik Bröndby og Kristianstad um helgina.
Íslendingarnir sem mættust í leik Bröndby og Kristianstad um helgina. Mynd/Heimasíða Bröndby

Rakel Hönnudóttir byrjaði vel með danska liðinu Bröndby en hún lék sína fyrstu leiki með liðinu um helgina. Báðir leikirnir voru æfingaleikir, annar við danskt B-deildarlið og hit við sænskt úrvalsdeildarlið.

Í fyrri leiknum sem var gegn Taastrup FC skoraði hún mark aðeins tólf mínútum eftir að hún kom inn á sem varamaður og í þeim síðari lagði hún upp fyrra mark Bröndby í 2-0 sigri á Kristianstad DFF.

Rakel byrjaði á bekknum í leiknum á móti 1. deildarliði Taastrup FC á laugardaginn en kom inn á í hálfleik í stöðunni 0-1 fyrir Taastrup. Rakel jafnaði leikinn á 57. mínútu og Nanna Larsen tryggði Bröndby síðan sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 82. mínútu.

Á heimasíðu Bröndby segir að Rakel hafi fengið góð tækifæri til að bæta við mörkum en hún lét sér nægja eitt mark í fyrsta leiknum sínum. Þetta var söguleg innkoma því Rakel er fyrsti erlendi leikmaður kvennaliðs Bröndby.

Rakel var komin í byrjunarliðið í leiknum á móti Kristianstad DFF á sunnudeginum og á 19. mínútu leiksins lagði hún upp fyrsta mark leiksins fyrir Kristinu Kragh. Það var síðan Theresa Nielsen sem skoraði seinna markið á 63.mínútu. Rakel lék allan leikinn með Bröndby.

Það tóku alls fjórir íslenskir leikmenn þátt í leiknum því í liði Kristianstad voru þær Hólmfríður Magnúsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir og Erla Steina Arnardóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×