Íslenski boltinn

Matthías Guðmunds.: Það er allt undir hjá Val

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Matthías í leik gegn KR.
Matthías í leik gegn KR. Mynd/Arnþór

„Ég er afar spenntur fyrir kvöldinu. Það er alltaf gaman að spila á móti Val. Það var svolítið asnalegt fyrsta árið en svo hefur það lagast," sagði FH-ingurinn Matthías Guðmundsson en hann er uppalinn Valsari.

Valur tekur á móti FH í stórleik kvöldsins í Pepsi-deild karla.

„Það er allt undir hjá Val í kvöld. Ég var bara að skoða tölfuna áðan og sá þá að við verðum 14 stigum á undan þeim ef við vinnum. Það hlýtur að vera ansi erfitt fyrir Val að horfa upp á það," sagði Matthías.

Valsmenn skildu við þjálfara sinn, Willum Þór Þórsson, í gær. Hvaða áhrif heldur Matthías að það muni hafa á Valsmennina?

„Þeir mæta alveg pottþétt brjálaðir til leiks. Það gerist oft að þegar lið skipta um þjálfara þá kemur einhver aukakraftur. Að sama skapi gætu þeir verið brothættir," sagði Matthías.

Hann hefur ekki átt fast sæti í liði FH í sumar og hann hefur verið orðaður við endurkomu í sitt gamla félag.

„Það er ekkert búið að hringja í mig með neitt slíkt. Ég hef ekki óskað eftir því að fá að fara frá FH. Ég spilaði ekki vel í byrjun móts og viðurkenni það. Við erum svo bara með hörkulið og maður verður að standa sig til að vera í liðinu. Samkeppnin er mikil og það er voða erfitt að væla á hliðarlínunni á meðan þeir sem spila standa sig vel og vinna alla leiki. Ég mun því bara halda áfram að berjast fyrir mínu," sagði Matthías að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×