Fótbolti

Margrét Lára: Fullkomið að mæta Frökkum í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson í Tampere skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir á æfingu með landsliðinu.
Margrét Lára Viðarsdóttir á æfingu með landsliðinu. Mynd/ÓskarÓ

Margrét Lára Viðarsdóttir er tilbúinn í slaginn á móti Frakklandi í kvöld en hún skoraði 12 mörk í 10 leikjum íslenska liðsins í undankeppninni og skoraði fernu á móti Serbum í síðasta landsleik. Margrét Lára verður þó örugglega í strangri gæslu hjá Frökkum í kvöld.

„Það er fullkomið að mæta Frökkum í fyrsta leik. Við erum harma að hefna á móti þeim því við töpuðum fyrir þeim síðast. Við vorum ekkert sáttar með þann leik og ég held að það sé runninn upp stund hefndarinnar. Það er því frábært að byrja á móti þeim," segir Margrét Lára.

„Mér finnst líklegt að bæði lið fari varkárt inn í leikinn. Þetta er fyrsti leikur og það vill enginn tapa stigum eða taka of mikla áhættu. Það gæti því verið að leikurinn yrði í rólegri kantinum til þess að byrja með. Ég held að það henti okkur ágætlega því við erum þolinmóðar og getum beitt góðum skyndisóknum og haldið þeim niðri. Við eigum mjög góða möguleika," segir Margrét Lára.

Hún minnist leiksins í Frakklandi í fyrra þar sem íslenska liðinu tókst ekki að tryggja sér sigur í riðlinum og farseðill til Finnlands. Íslenska liðið komst á EM eftir að hafa unnið Íra í umspilsleikjum.

„Spennustigið var rangt út í Frakklandi, við vorum stressaðar og þorðum ekki að halda boltanum. Það vatt allt upp á sig og þetta varð hálfgjört kaós í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikurinn var af okkar mati frábærlega vel spilaður og við teljum okkur hafa verið betri í síðari hálfleik og átt meira skilið út úr leiknum. Við verðum að sýna slíka frammistöðu í 90 mínútur á móti svona sterku liði," segir Margrét Lára.

Margrét Lára skipti um félag í Svíþjóð rétt fyrir EM til þess að geta undirbúið sig betur fyrir keppnina í Finnlandi. „Ég er í ágætu standi og ég hef fengið hjálp frá fólki bæði í Kristianstad og hér í landsliðinu. Ég er nálgast það að vera í mínu besta standi og vonandi get ég sýnt það á mánudaginn," segir Margrét Lára og bætir við:

„Leikformið er öðruvísi en æfingaformið. Ég fékk fjóra góða leiki með Kristianstad og það skipti miklu máli fyrir mig. Ég fékk við það meira sjálfstraust og spilaði líka stærra hlutverk hjá Kristianstad sem hentaði mér vel," segir Margrét Lára.

Leikskipulagið fyrir kvöldið er líka á hreinu. „Við munum beita lápressu og reyna að halda markinu okkar hreinu. Við erum samt ekki að fara í þennan leik til þess að ná bara í eitt stig. Við erum að fara til þess að sækja þrjú stig en þurfum að gera það með því að halda markinu hreinu. Við vitum alltaf að við fáum okkar færi og tölfræðin sýnir það að við skorum mark í nánast hverjum einasta landsleik sem við spilum. Ef við náum að spila góða vörn sem við erum vanar að gera og beita jafnframt skyndisóknum þá tel ég okkur eiga mjög góða möguleika," sagði Margrét Lára.

Vísir bendir síðan á að Óskar Ófeigur mun blogga frá Tampere á Utan vallar-blogginu. Það má nálgast hér.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×