Fótbolti

Katrín: Við vorum ekki nógu þéttar varnarlega

Óskar Ófeigur Jónsson í Tampere skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir hugguð eftir leik í kvöld.
Hólmfríður Magnúsdóttir hugguð eftir leik í kvöld. Mynd/Ossi Ahola

Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, skildi ekkert í vítaspyrnudómnum sem Frakkarnir skoruðu jöfnunarmark sitt úr í kvöld. Franska liðið fékk síðan annað víti í seinni hálfleik og tryggði sér að lokum 3-1 sigur.

„Vonbrigðin eru mikil og þessi úrslit eru mjög svekkjandi. Við fáum á okkur þetta víti sem við skiljum ekki því Gunna fer bara í boltann. Það hefði verið mjög gott að halda 1-0 forystu aðeins lengur," sagði Katrín og hún var ekki sátt með dómarann.

„Við fengum ekkert ókeypis í þessum leik og mér hefði alveg fundist Margrét og Fríða mátt fá aðeins meira. Þetta fyrra víti var síðan dálítið áfall og við þurftum tíma til að vinna okkur upp úr því," sagði Katrín.

„Það var alveg frábært að skora svona snemma. Það var mjög flott en dugði því miður ekki í dag. Við vorum að kýla boltanum of mikið fram og vorum of mikið í löngum boltum. Við getum spilað meira stutt spil og haldið boltanum því það er svo mikið auðveldara," sagði Katrín en hún viðurkennir að væntingarnar voru mjög miklar og þessi úrslit því erfið fyrir liðið.

„Þetta er rosalega sárt og maður er mest svekktur með að við höfum ekki náð að stilla af spennuna og sýna okkar spil. Maður er svekktur með dómarann og allt það en þetta er samt í okkar höndum. Við vorum ekki nógu þéttar varnarlega og þær fengu að athafna sig of mikið," sagði Katrín.

„Franska liðið er frábært lið en við erum búnar að setja okkur markmið. Þegar við erum komnar í svona mót þá er ekki spurning um að tapa þessu sem minnst. Við erum ekkert í þeim pakka að ætla bara að vera með. Við ætlum okkur áfram og við ætlum okkur enn áfram því Það eru alveg möguleikar ennþá fyrir okkur því þetta er ekki búið," sagði Katrín.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×