Íslenski boltinn

Fylkismenn athuguðu Þórð Ingason

Elvar Geir Magnússon skrifar
Þórður Ingason verður áfram hjá Fjölni. Mynd/Daníel
Þórður Ingason verður áfram hjá Fjölni. Mynd/Daníel

Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, sagði í samtali við Vísi að ekkert væri ljóst í markmannsmálum liðsins. Árbæingar leita að markverði til að fylla skarð Fjalars Þorgeirssonar sem verður frá næstu vikurnar vegna handleggsbrots.

Ólafur staðfesti að Fylkismenn hefðu haft samband við Fjölni og athugað stöðuna á Þórði Ingasyni sem hefur verið varamarkvörður Grafarvogsliðsins. Þórður missti stöðu sína í byrjunarliðinu til Hrafns Davíðssonar sem leikið hefur virkilega vel í sumar.

„Það var ekki fræðilegur möguleiki á því að við værum að fara að sleppa Þórði. Hann fær slatta af leikjum í lok tímabilsins," sagði Hermann Hreinsson hjá knattspyrnudeild Fjölnis en Hrafn mun fara út í nám í lok ágústmánaðar og mun Þórður þá taka stöðuna aftur í marki liðsins.

Ólafur sagði að markmannsmálin væru í vinnslu og verið væri að skoða ýmsa kosti. Vonast væri til að eitthvað kæmist á hreint í dag en ef ekki mun Daníel Karlsson, varamarkvörður Fylkis, standa í markinu í bikarleik gegn Fram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×