Íslenski boltinn

Freyr og Hjörtur Logi frá í tvær til þrjár vikur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Hjörtur Logi Valgarðsson. Mynd/Daníel
Hjörtur Logi Valgarðsson. Mynd/Daníel

Fjórir leikmenn FH fóru meiddir af velli í 3-2 sigrinum gegn Fylki í gær. Íslandsmeistararnir þurftu því að leika manni færri í rúman hálftíma en þrátt fyrir það tókst þeim að tryggja sér sigur.

Ásgeir Gunnar Ásgeirsson og Freyr Bjarnason þurftu að yfirgefa völlinn í fyrri hálfleik, Tryggvi Guðmundsson fór sömu leið snemma í seinni hálfleik og svo meiddist Hjörtur Logi Valgarðsson eftir klukkutíma leik.

Freyr er tognaður í læri og Hjörtur tognaður á nára en báðir verða þeir frá í tvær til þrjár vikur. Þetta staðfesti Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, við Vísi. Meiðsli Tryggva og Ásgeirs eru ekki eins slæm og þeir ættu að vera klárir í slaginn á miðvikudag þegar FH tekur á móti Aktobe í forkeppni Meistaradeildarinnar.

„Nú reynir bara á leikmannahópinn, það er ekki spurning," sagði Heimir sem býr yfir meiri breidd í sínum leikmannahóp en flest önnur lið landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×