Einn af Barðastrandarræningjunum var handtekinn á laugardagskvöldið eftir að hafa gengið í skrokk á sautján ára pilti upp í Breiðholti. Atvikið átti sér stað um kvöldið en pilturinn hafði farið að vitja systkina sinna. Í ljós kom að Barðastrandarræninginn, auk félaga sem var með honum, höfðu meinað börnunum, sem eru um sjö ára aldur, að komast heim til sín.
Börnin höfðu verið í verslun að kaupa sælgæti. Þegar þau skiluðu sér ekki strax heim fór bróðir annars barnsins að vitja þeirra. Hann kom þá að Barðarstrandarræningjanum auk félaga hans. Þeir höfðu meinað börnunum að fara heim til sín.
Sautján ára pilturinn skarst þá í leikinn. Barðastrandarræninginn auk félaga hans gengu þá í skrokk á honum. Lögreglan var kölluð til og komu allnokkrir bílar. Þá voru meðal annars sérsveitamenn frá Ríkislögreglustjóra kallaðir til.
Þegar lögreglan kom á vettvang streittust mennirnir á móti handtöku. Þeir voru yfirbugaðir og handteknir, síðan voru þeir fluttir í fangageymslur. Þar fengu þeir að dúsa yfir nóttina.
Á sunnudeginum voru þeir yfirheyrðir og svo sleppt í kjölfarið.
Fregnir herma að þeir hafi verið vopnaðir hníf en vopnið fannst ekki.
Barðastrandarræninginn er ansi iðinn en fyrirtaka er í málinu í dag vegna ránsins á Barðaströnd. Þá brutust þeir inn til úrsmiðs á áttræðisaldri. Þeir slógu manninn og bundu hann. Svo létu þeir greipar sópa á verkstæðinu. Þeir komust undan með þýfi að andvirði tveggja milljóna króna.
Einn mannanna, Axel karl Gíslason, er ákærður fyrir að hafa skipulagt ránið og sent tvo menn út af örkinni. Sjálfur braust hann ekki inn.
Einn mannanna, Viktor Már Axelsson, er í gæsluvarðhaldi vegna fleiri afbrota. Þá var Jóhann Kristinn Jóhannsson staddur í Danmörku þegar þingfesting málsins fór fram. Fjórði maðurinn, Marvin Kjarval M. segist vera hættur fíkniefnaneyslu og stefnir á að verða hundaþjálfari.