Erlent

Sjónvarpsstjarna fyrirskipaði morð til að auka áhorfið

MYND/AP

Lögreglan í Brasilíu sakar þekktan sjónvarsmann um að fyrirskipa morð til þess að auka áhorf á sjónvarpsþætti sínum. Wallace Souza, sem einnig situr á brasílíska þinginu fyrir Amazon fylkið, er með sjónvarpsþátt sem varpar kastljósinu á ýmis glæpamál í fylkinu.

Nú hefur hann verið sakaður um að vera sjálfur einn af höfuðpaurum eiturlyfjahrings ásamt syni sínum. Lögregla segir að Souza hafi slegið tvær flugur í einu höggi með því að skipa fyrir um morð á samkeppnisaðilum sínum í eiturlyfjabransanum og láta myndatökulið sitt um leið vita í tíma til þess að auka áhorfið á sjónvarpsþáttinn.

Souza, sem er fyrrverandi lögreglumaður sem rekinn var úr lögreglunni, segir ekkert hæft í staðhæfingunum. Þær eru að sögn hans runnar undar rifjum andstæðinga hans í stjórnmálunum. Sonur hans hefur verið handtekinn en Souza sjálfur getur enn um frjálst höfuð strokið vegna þess að þingmennskan veitir honum friðhelgi gegn lögsókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×