Erlent

Sjóránin við Sómalíu bitna á neyðaraðstoð

Tíð sjórán út af ströndum Sómalíu kosta hjálparsamtök og þjóðir mikla fjármuni og bitna á neyðaraðstoð við fjölmörg ríki í Afríku. Frá lokum febrúar hefur verið ráðist á 78 skip á svæðinu.

Áhöfn flutningaskipsins Liberty Sun er nú á leið til síns heima en sjóræningjar réðust á skipið á miðvikudag og héldu skipstjóranum um tíma í gíslingu um borð í smábáti. Bandarískum sjóliðum tókst að bjarga skipstjóranum á sunnudag. Skipið var á leið með hjálpargögn til hafnarborgarinnar Mombasa í Kenya þegar ráðist var á það.

Fjölmargar þjóðir hafa lagt til herskip til verndar flutningaskipum, en það dugar engan veginn til vegna þess hve skipaferðir eru tíðar og hafsvæðið stórt. Frá því á sunnudag hafa sjóræningjar náð fjórum skipum á sitt vald og tekið 60 manns í gíslingu.

Hins vegar hefur verið ráðist á 78 skip frá lokum febrúar. Sjóræningjar náðu 19 þeirra á sitt vald og haldið um 300 manns í gíslingu. Eftir töluverðu er að slægjast við sjóræningjana, en þeir geta fengið allt að milljón dollara í lausnargjald fyrir eitt skip og áhöfn. Stjórnvöld í Kenya áætla að þeir hafi fengið greidda 150 milljón dollara í lausnargjald á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×