Erlent

Hillary firrtist við þegar spurt var um Bill

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, virðist mikið í mun að koma fólki í skilning um það að hún sé ekki í skugga eiginmanns síns. Hillary var á fundi í Congo í gær þar sem hún svaraði spurningum háskólastúdenta við háskólann í Kinshasa.

Spurningarnar fóru fram með aðstoð túlks og ráðherran brást ókvæða við þegar hún var spurð um álit Bills Clintons á viðskiptasamningi sem stjórnvöld í Congo gerðu nýlega við Kínverja. Viðstaddir segja að Hillary hafi reiðst snögglega og svarað önuglega að það væri hún sem væri utanríkisráðherrann, en ekki maðurinn hennar.

„Ég ætla ekki að vera málpípa mannsins míns," bætti hún við. Eiginmaður Hillary, Bill Clinton fyrrverandi forseti Bandaríkjanna komst aftur rækilega í sviðsljósið á dögunum þegar hann fór til Norður Kóreu og fékk tvo bandaríska fréttamenn lausa úr haldi. Gagnrýnendur Clinton hjónanna segja augljóst að uppákoman í Congo sé skýrt merki um að afskipti Bills af alþjóðamálum sé Hillary lítt að skapi.

Til að bæta gráu ofan á svart kom í ljós að námsmaðurinn sem spurði spurningarinnar sem olli Hillary svo miklu hugarangri var blásaklaus. Túlkurinn hafði klúðrað spurningunni og talað um Bill Clinton þegar stúdentinn vildi í raun vita um álit Baracks Obama á málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×