Enski boltinn

John Terry í ólöglegu braski

Elvar Geir Magnússon skrifar

Breska blaðið News of the World kom í dag upp um ólöglegt brask hjá John Terry, fyrirliða enska landsliðsins og Chelsea. Terry hélt að hann væri að funda með ríkum viðskiptamanni en var þá í raun að ræða við blaðamann sem kom fyrir falinni myndavél.

Terry starfar með miðabraskaranum Tony Bruce og það sem hann er að selja er aðgangur að æfingasvæði Chelsea og sýningaferð um aðstöðu félagsins ásamt aðgangi að sér sjálfum. Allt án vitundar Chelsea.

Kostar þessi pakki 10 þúsund pund (2 milljónir íslenskra króna) en Terry sagði við "viðskiptamanninn" að þar af færu 8 þúsund í góðgerðarmál en afgangurinn í hlut Bruce.

Þrír dulbúnir blaðamenn News of the World eyddu síðan góðum tíma með Terry og hittu þar meðal annars Didier Drogba og Michael Ballack þar sem þeir létu fara vel um sig í heitum potti.

Einnig fylgdust þeir með æfingu liðsins og fengu að borða með leikmönnum og ræða einslega við Terry. Ítrekað var við blaðamennina að halda þessu leyndu þar sem félagið mætti alls ekki vita af þessu. Ef eitthvað kæmi upp ættu þeir að benda á Bruce en neita harðlega að Terry hafi átt einhvern þátt í þessu.

News of the World hefur sent Chelsea og knattspyrnusambandinu eintök af upptöku sinni með fundinum með Terry og Bruce.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×