Fótbolti

Fabio Capello: HM verður erfiðasta prófið mitt sem stjóri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins.
Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins. Mynd/AFP

Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að HM í Suður-Afríku næsta sumar verði hans erfiðasta próf á stjóraferlinum. Capello hefur gert frábæra hluti með stórlið Juventus og Real Madrid á löngum og farsælum ferli en Capello er einn af mörgum sem bíða spenntir eftir því að það verði dregið í riðla í dag.

„Þetta verður erfitt próf, það efiðasta sem ég hef farið gegn um sem stjóri," sagði Fabio Capello við The Sun. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég kynnist þessu andrúmslofti sem fylgir því að vera að fara á HM og ég finn vel fyrir því. Þetta er mjög spennandi," sagði Capello.

„Þetta er allt nýtt fyrir mér. Það er öðruvísi að taka þátt í HM sem leikmaður þegar þú hugsar um sjálfan þig. Nú þarf að fara hugsa um alla hluti í kringum liðið og taka endalausar ákvarðanir um eitt og annað," sagði Capello. „Það er mjög mikilvægt að nota næstu fimm mánuði til að taka allar ákvarðanir. Þetta er mitt starf, ég vil komast í úrslitaleikinn og ég hef mikla trú á mínu liði," segir Capello.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×