Erlent

Flykkjast í ófrjósemisaðgerðir í kreppunni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bandaríkjamenn gangast nú undir ófrjósemisaðgerðir sem aldrei fyrr. Frá þessu er greint í New York Times og segjast sérfræðingar sem þar er rætt við sjá glöggan svip með ástandinu sem ríkti í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar en þá hafi fæðingartíðni snarlækkað í Bandaríkjunum.

Minnkuð löngun til barneigna mun vera fylgifiskur harðæris og þess að fólk sér fram á erfiða tíma. Læknir nokkur í New York segist hafa framkvæmt 13 prósent fleiri aðgerðir það sem af er þessu ári en á sama tíma í fyrra.

Merki um þrengingar eru fleiri. Marriott-hótelin í Bandaríkjunum eru hætt að gefa gestum sínum ókeypis eintak af dagblaðinu USA Today en slíkt hefur verið fastur liður þar á bæ fram að þessu. Við þetta minnkar sala blaðsins um 18 milljónir eintaka á ársgrundvelli sem svo auðvitað hefur áhrif á rekstur þess.

Og dæmin eru enn fleiri. Hollenskur sjónvarpsþáttaframleiðandi ætlar að hefja gerð raunveruleikaþáttanna Someone's Gotta Go, Einhver verður að fara, þar sem starfsfólk illa staddra fyrirtækja ákveður sjálft hverjum verður sagt upp næst. Síðasta dæmið, þótt þau séu reyndar mun fleiri, er frá lögmannsstofu í New York sem greiðir nýjum starfsmönnum bónus fyrir að taka sér ársfrí - launalaust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×