Innlent

Flestum foreldrum finnst unglingadrykkja sjálfsögð

Flestir unglingar í framhaldsskólum drekka áfengi. Ekki við framhaldsskólana að sakast, segir rannsóknarstjóri Rannsóknar og greiningar. Áfengisneysla eykst um 140 prósent frá 10. bekk til 1. árs í framhaldsskóla.
Flestir unglingar í framhaldsskólum drekka áfengi. Ekki við framhaldsskólana að sakast, segir rannsóknarstjóri Rannsóknar og greiningar. Áfengisneysla eykst um 140 prósent frá 10. bekk til 1. árs í framhaldsskóla.

Rannsóknir sýna fram á að stór hluti foreldra unglinga í framhaldsskólum lítur svo á að áfengisdrykkja þeirra sé í góðu lagi.

Álfgeir Logi Kristjánsson, rannsóknarstjóri Rannsóknar og greiningar hjá Háskólanum í Reykjavík, bendir á að niðurstöður úr rannsóknum þeirra á vímuefnaneyslu unglinga sýni meðal annars að tæpum 26 prósentum stráka sautján ára og yngri og 27 prósentum stelpna hafi verið boðið áfengi af foreldrum sínum. Foreldrar tæplega sextán prósenta stráka á þessum aldri og tæplega átján prósenta stelpna hafi einnig keypt áfengi fyrir börnin sín.

„Það er áhugavert að benda á þessar tölur vegna þess að þær sýna að áfengisdrykkja unglinga er ekki bara framhaldsskólavandamál. Þetta er menningarbundið fyrirbæri, við lítum gjarnan svo á að unglingar séu orðnir fullorðnir þegar þeir eru sextán ára," segir Álfgeir, sem segir skýringu þessa að hluta til hversu stutt er síðan sjálfræðisaldur var hækkaður úr sextán árum í átján. Hann segir síðan ósamræmi milli sjálfræðisaldurs og hins löglega aldurs til áfengisdrykkju, sem er tuttugu ár, skapa ákveðna óvissu.

Töluvert hefur verið fjallað um drykkju unglinga á framhaldsskólaaldri undanfarið. Í rannsókn Rannsóknar og greiningar frá árinu 2007 kom fram að tæp 26 prósent stráka og 33 prósent stúlkna yngri en átján ára sögðust drekka stundum eða oft á skemmtistöðum, 44 prósent stráka og 55 prósent stúlkna yngri en átján drukku stundum eða oft heima hjá sér og 44 prósent stráka á þessum aldri og 53 prósent stúlkna drukku stundum eða oft fyrir framhaldsskólaball.

Í þessari sömu könnun kom í ljós að 62 prósent stráka yngri en átján og sjötíu prósent stúlkna á sama aldri sögðust hafa drukkið áfengi einu sinni eða oftar mánuðinn áður en könnunin var gerð. Á meðal framhaldsskólanema eldri en átján hafði 81 prósent stráka og 83 prósent stúlkna drukkið áfengi einu sinni eða oftar mánuðinn á undan.

„Það er gríðarleg áfengismenning meðal unglinga á framhaldsskólaaldri og tölur um drykkju í framhaldsskólum sýna að drykkjan á þeim aldri hefur ekki minnkað svo heitið geti."

Það er gerólíkt því sem gerst hefur undanfarin ár í grunnskólum þar sem verulega hefur dregið úr drykkju nemenda í efstu bekkjum grunnskóla. Áfengisneysla eykst hins vegar um 140 prósent frá tíunda bekk til fyrsta ársins í framhaldsskóla, segir Álfgeir. „Spurningin sem vofir yfir okkur er hvort við ætlum að gera eitthvað í málinu eða horfa í hina áttina."

sigridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×