Erlent

Önnur „jörð“ fundin

Óli Tynes skrifar
Jörðin.
Jörðin.
Stjörnufræðingar telja sig hafa fundið það himintungl sem helst líkist jörðinni. Þessi „tvífari jarðarinnar" er Títan eitt af tunglum Satúrnusar. Vísindamenn hafa notað ratsjá geimfarsins Cassinis til þess að sjá í gegnum þykkan lofthjúp Títans og kortleggja yfirborðið.

Búið er að kortleggja þriðjung af tunglinu. Og vísindamenn eru undrandi.

Plánetujarðfræðingurinn Rosaly Lopes sem starfar hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna sagði á alþjóðlegeri ráðstefnu í Brasilíu að það hefði komið þeim á óvart hversu mjög Titan líktist jörðinni.

Titan líkist jörðinni meira en nokkuð annað himintungl í sólkerfinu, þrátt fyrir gríðarlegan mun á hitastigi og öðrum umhverfisþáttum, sagði Dr. Lopez.

Lofthjúpur Títans er svo líkur lofthjúp jarðarinnar að Geimferðastofnunin velti fyrir sér þeim möguleika að nota loftskip til þess að kanna yfirborðið.

Fimbulkuldi ríkir á Títan. En þótt loftslagið sé mönnum fjandsamlegt eru á tunglinu stöðuvötn á víð og dreif, sandöldur, fjallshryggir og hugsanlega eldfjöll.

Vegna kuldans eru stöðuvötnin botnfrosin og engar líkur á að þar sé að finna einhverjar lífverur sem hægt er að vinka til.

Robert Nelson, annar vísindamaður við Geimferðastofnun Bandaríkjanna segir hinsvegar að það hafi ekki farið framhjá þeim að helstu efnin í lofthjúp tunglsins séu ammoníak, metan og köfnunarefni.

Það er mjög líkt því sem var á jörðinni þegar þar kviknaði fyrst líf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×