Innlent

Lögin gera ekki ráð fyrir netinu

Fjarskiptafyrirtækin ákváðu nýverið að loka fyrir aðgang að vefsíðu sem braut ítrekað gegn persónuverndarsjónarmiðum. Fréttablaðið/Valli
Fjarskiptafyrirtækin ákváðu nýverið að loka fyrir aðgang að vefsíðu sem braut ítrekað gegn persónuverndarsjónarmiðum. Fréttablaðið/Valli
Breyta ætti lögum svo dómstólar fái heimildir til að láta fjarskiptafyrirtæki loka á vefsíður sem brjóta gegn vernd einkalífsins. Þetta er meðal þess sem lagt er til í bréfi Persónuverndar til dómsmálaráðherra.

Persónuvernd hefur borist fjöldi kvartana vegna vefsíðna sem birta persónulegt efni, segir Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónu­verndar. Í bréfinu til ráðherra er sérstaklega minnst á vefinn ringulreid.org, þar sem reglulega voru birtar myndir af ungu fólki og upplýsingar um viðkomandi.

„Í raun og veru höfum við engin úrræði til að taka á þessum málum,“ segir Sigrún. Lög um persónuvernd byggi á evrópskum lögum frá árinu 1995. Þar hafi hreinlega ekki verið gert ráð fyrir þeim vandamálum sem komið hafi upp í tengslum við netið.

Fjarskiptafyrirtækin lokuðu raunar á aðgang íslenskra netnotenda að ringulreid.org. Persónu­vernd telur að eðlilegra fyrirkomulag væri að dómstólar hefðu heimildir til að fá fjarskiptafyrirtækin til að loka fyrir aðgang, að kröfu lögreglu.

Í bréfinu til dómsmálaráðherra, sem dagsett er 17. september, er lagt til að stofnuð verði nefnd sem kanni hvort fýsilegt sé að setja slík úrræði í lög. Sigrún segir að eftir sé að útfæra það nákvæmlega, en slík mál verði að fá hraða afgreiðslu hjá lögreglu og hjá dómskerfinu til að þjóna tilgangi sínum. Nákvæm útfærsla verði að vera í höndum löggjafans.- bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×