Íslenski boltinn

Óli Þórðar: Alger aulaskapur að klára ekki leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis. Mynd/Valli
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, var allt annað en ánægður með að hafa misst leikinn gegn Fjölni í jafntefli. Lokatölur voru 2-2.

Fylkir komst tvívegis yfir í leiknum en í bæði skiptin náðu gestirnir að jafna leikinn. Hann játti þó því að þetta voru sennilega sanngjörn úrslit í leiknum.

„Jú, sennilega var þetta sanngjarnt miðað við hvernig leikurinn var - við vorum einfaldlega slakir í dag. En það er samt alger aulaskapur að vera 2-1 yfir þegar þrjár mínútur eru eftir og geta ekki hangið á því út leikinn," sagði Ólafur.

Þrír leikmenn Fylkis tóku út leikbann í dag. „Það hafði vissulega áhrif en það breytir því ekki að þeir ellefu menn sem voru inn á vellinum áttu að berjast fyrir þeim stigum sem voru í boði."

„Það var stefnan að hanga í öðru sæti deildarinnar en það gerum við ekki með svona spilamennsku. Það skiptir engu þótt FH hafi tapaði í dag enda erum við ekki að stefna að titlinum. Það þyrfti meiriháttar stórslys til að FH færi að klúðra honum."

KR komst með 2-1 sigri á Keflavík í dag aftur upp fyrir Fylki í annað sæti deildarinnar. Bæði lið eru með 33 stig en KR með betra markahlutfall auk þess sem liðið á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×