Enski boltinn

Berbatov sá um sína gömlu félaga

Berbatov sá um fyrrum félaga sína í Tottenham
Berbatov sá um fyrrum félaga sína í Tottenham AFP

Dimitar Berbatov gerði fyrrum félögum sínum í Tottenham litla greiða í dag þegar hann tryggði nýja liðinu sínu Manchester United 2-1 sigur og sæti í fimmtu umferð enska bikarsins.

Bæði lið voru án fjölda fastamanna sem ýmist voru hvíldir eða meiddir en það var reyndar rússneski framherjinn Roman Pavlyuchenko sem kom gestunum frá Lundúnum yfir í leiknum eftir innan við fimm mínútna leik þegar hann skallaði fyrirgjöf Tom Huddlestone í netið.

Paul Scholes jafnaði fyrir Manchester United eftir 35 mínútur þegar langskot hans hrökk af Huddlestone og í netið og aðeins mínútu síðar tryggðu tveir fyrrum Tottenham-menn United sigurinn.

Miðjumaðurinn Michael Carrick átti þá laglega sendingu á Berbatov sem hann smellti í netið og kom United yfir - kaldhæðnislegt fyrir stuðningsmenn Tottenham sem þurfti að sjá á eftir báðum leikmönnum í burtu frá félaginu í leit að titlum.

Lengra komust gestirnir ekki og verða nú að bíða eftir úrslitaleiknum í deildabikarnum til að leita hefnda, en þar mætast liðin þann 1. mars nk.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×