Íslenski boltinn

Fylkisstúlkur skoruðu fjögur í seinni hálfleik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Fylkisliðið var of stór biti fyrir ungt lið ÍBV.
Fylkisliðið var of stór biti fyrir ungt lið ÍBV.

Bikarævintýri Eyjastúlkna er á enda en þær töpuðu 4-0 fyrir Fylki í átta liða úrslitum í kvöld. ÍBV leikur í 1. deildinni og hafði lagt tvö úrvalsdeildarlið að velli í keppninni, GRV og Aftureldingu/Fjölni.

Ekkert var skorað í fyrri hálfleiknum en Fylkisstúlkur áttu þrjú sláarskot í honum. Laufey Björnsdóttir átti tvö af þeim rétt fyrir leikhlé en einnig skaut Anna Björg Björnsdóttir í slánna.

Besta færi ÍBV í leiknum fékk Kristín Erna Sigurlásdóttir en Björk Björnsdóttir í marki Fylkis varði vel.

Á 52. mínútu braut Danka Podovac ísinn eftir mikinn klaufagang hjá Eyjastúlkum. Varnarmaður sendi boltann aftur til baka á Karitas Þórarinsdóttur sem tók hann með höndum og óbein aukaspyrna dæmd. Fylkisstúlkur voru fljótar að hugsa, tóku spyrnuna fljótt og Podovac skorað.

Eftir þetta var Fylkisliðið með nánast öll völd á vellinum og bætti við þremur mörkum fyrir leikslok. Anna Björg Björnsdóttir skoraði tvö lagleg mörk og þá skoraði Danka Podovac sitt annað mark. Úrslitin 4-0 fyrir Árbæjarliðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×