Erlent

Bandaríkjamenn mótmæla lausn Lockerbie morðingja

Bandaríkjamenn hafa lýst sig andsnúna þeim áformum breskra stjórnvalda að sleppa hryðjuverkamanninum al-Megrai úr fangelsi af mannúðarástæðum.

Al-Megrai hefur setið í fangelsi í Skotlandi í tíu ár en hann var sakfelldur fyrir að sprengja bandaríska Pan Am þotu í loft upp yfir þorpinu Lockerbie í Skotlandi með þeim afleiðingum að 270 létust um borð auk ellefu þorpsbúa sem dóu þegar brakinu af þotunni rigndi yfir þorpið.

Al-Megrai er með krabbamein í blöðruhálskirtli og vill fá að deyja í heimalandi sínu. Al Magræ var í leyniþjónustu Líbíu þegar hann framdi ódæðið og var réttað yfir honum af óháðum dómstóli í Hollandi. Fréttastofa BBC hefur heimildi fyrir því að bresk yfirvöld íhugi nú að sleppa honum í næstu viku en bandarísk stjórnvöld segjast ekki hafa verið spurð að því og afstaða þeirra í málinu sé eindregið sú að hann afpláni allan dóminn sem hann hlaut á sínum tíma.

Ættingjar þeirra sem létust í sprengingunni hafa einnig haft uppi hávær mótmæli og benda á að al-Megrai hafi ekki sýnt fólkinu sem hann myrti neina samúð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×