Innlent

Gott að gagnrýnisraddir séu til staðar

Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen nýir ritstjórar Morgunblaðsins mættu til starfa í morgun og heilsuðu upp á starfsfólk blaðsins. Davíð sagði gott að gagnrýnisraddir vegna ráðningar hans sem ritstjóra væru til.

Davíð og Haraldur mættu upp í Hádegismóa klukkan hálftíu í morgun. Fréttastofu hefur ekki tekist að ná tali af ritstjórunum tveimur en þeir munu ræða við starfsfólk blaðsins í hádeginu. Mikið hefur gengið á hjá Morgunblaðinu undanfarna daga og var um 30 manns sagt upp störfum í gær, þar af 19 úr ritstjórn. Stór hópur starfsmanna var með áratuga starfsferil að baki hjá blaðinu. Auk þess voru tíu manns með tímabundna samninga sem ekki verða framlengdir.

Davíð sagði við mbl.is þegar hann var spurður um gagnrýnisraddir vegna ráðningar hans sem ritstjóra að gott væri að slíkar raddir væru til. Blaðið gengi út á að koma gagnrýnisröddum að svo allir gætu komist að eigin niðurstöðu þegar öll sjónarmið hafi fengið framgang. Um þær fullyrðingar, að fyrri störf Davíðs muni varpa rýrð á trúverðugleika Morgunblaðsins, sagðist hann búast við því að vilji þeirra sem fyrir ráðningu hans stæðu væri að menn notuðu sér þann forða sem þeir hafi aflað sér á langri vegferð og hann hlakki til að moða úr því.

Fréttastofa reyndi að fá upplýsingar frá áskriftardeild Morgunblaðsins um hvort margir hefðu sagt upp áskrift af blaðinu en fékk engin svör. Deildin hafði ekki tölur yfir slíkt en hins vegar var fréttastofu greint frá því að annasamt væri í deildinni vegna fjölda hringinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×