Innlent

Fjórum fyrirtækjum bannað að selja ís

Mynd/Rósa J.
Niðurstöður rannsókna á örverufræðilegum gæðum íss úr vél bendir til að umgengni við ísvélar og ísblöndur í Reykjavík fari batnandi enda færri fyrirtæki með ófullnægjandi niðurstöður vegna kólígerla. Ný rannsókn sýnir að öðru leyti svipaðar niðurstöður og tvö síðastliðin ár. Tímabundinni sölustöðvun á ís úr vél var beitt hjá þremur fyrirtækjum í sumar og einu í haust. Þetta kemur fram í frétt á vef umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.

Þar segir að Matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hefur undanfarin ár kannað örverufræðileg gæði íss úr vél á sölustöðum í Reykjavík. Alls voru tekin 73 íssýni á 49 sölustöðum í Reykjavík frá maí til júlí í sumar. Heilbrigðisfulltrúar fóru í september og október í eftirfylgni til þeirra fyrirtækja sem höfðu verið með ófullnægjandi niðurstöður tvisvar eða oftar um sumarið og ný sýni tekin. Aðbúnaður á sölustöðum var einnig kannaður, ýmis atriði varðandi ísvélarnar athuguð og hitastig mælt.

Niðurstöður í fyrstu sýnatöku núna í sumar sýndu að örverufræðileg gæði íss úr vél voru fullnægjandi hjá 21 af 49 sölustöðum í Reykjavík eða hjá 42% fyrirtækja. Niðurstöður voru ófullnægjandi hjá 15 eða 31% fyrirtækja og 13 fyrirtæki eða 27% fengu athugasemd eftir fyrstu sýnatöku.

Örverufræðileg gæði íss úr vél voru komin í gott horf eftir aðra sýnatöku hjá flestum fyrirtækjum. Tímabundinni sölustöðvun á ís úr vél var beitt hjá fjórum fyrirtækjum, þremur í sumar og einu í haust.

Berglind Guðmundsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, segir að í ár hafi heildargerlafjöldi verið algengasta ástæða þess að sýni stóðust ekki kröfur um örverufræðileg gæði. Undanfarin ár hafi fjöldi kólígerla hins vegar verið helsta ástæða ófullnægjandi niðurstaðna. Berglind segir að hitastig í ísvél og þrif á vélinni hafi mest áhrif á heildargerlafjölda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×