Íslenski boltinn

Lifir FH-grýla KR-inga ennþá góðu lífi? - kemur í ljós í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason úr FH og Mark Rutgers úr KR berjast í fyrri leik KR og FH í sumar sem FH vann 2-1.
Atli Guðnason úr FH og Mark Rutgers úr KR berjast í fyrri leik KR og FH í sumar sem FH vann 2-1. Mynd/Anton

KR-ingar heimsækja topplið FH-inga í stórleik 16. umferðar Pepsi-deildar karla í kvöld. FH-ingar eru með þrettán stiga forskot á KR og geta nánast endanlega gert út um Íslandsmótið með sigri í leiknum í kvöld. Til að koma í veg fyrir það þurfa KR-ingar að gera það sem þeim hefur ekki tekist í sex ár - að vinna FH.

FH er búið að vinna níu síðustu deildarleiki sína á móti KR eða alla leiki síðan liðin gerðu 1-1 jafntefli í 10. umferð í Kaplakrika 6. júlí 2004. KR vann síðast sigur á FH á KR-vellinum í 9. umferð 8. júlí 2003. FH hefur síðan náð í 34 af 36 mögulegum stigum út úr leikjum sínum á móti KR.

KR-ingar hafa þurft að bíða enn lengur eftir sigri í Kaplakrika en KR vann þar síðast fyrir fimmtán árum. KR vann þá 2-1 sigur í 14. umferð 20. ágúst 1994 þar sem Logi Jónsson og Þormóður Egilsson skoruðu mörkin.

Leikur FH og KR hefst á Kaplakrikavelli klukkan 19.15 en á sama tíma fara fram fimm aðrir leikir í Pepsi-deildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×