Innlent

Vörur öðlast líf í Háskólanum

Siggi anton og guðbjörg
Siggi anton og guðbjörg

„Orkuverið er skemmtilegur vettvangur til að koma saman tveimur heimum, hönnuðum með hugmyndirnar og fólkið sem kann að virkja þær,“ segir Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, markaðsstjóri Athafnavikunnar, um Orkuverið sem haldið verður á Háskólatorgi á milli klukkan 15 og 17 í dag.

Orkuverið er eins konar hraðstefnumót þar sem hönnuðir fá möguleika á að kynnast og tengjast viðskiptafræðingum, verkfræðingum, markaðsfræðingum eða öðrum með rekstrarreynslu. Fyrirkomulag er með þeim hætti að þátttakendur setjast tveir saman í fimm mínútur og spjalla saman. Að fimm mínútum liðnum þurfa þeir báðir að skipta um sæti.

Þetta hefur verið gert nokkrum sinnum á árinu og minnist Jórunn þess að sautján manns hafi tekið þátt á síðasta stefnumótafundi.

Hún minnist þess að vöruhönnuðurinn Siggi Anton hafi verið einn þeirra sem hafi náð góðum árangri á stefnumótafundi Orkuversins. Á eitt þeirra kom hann með hugmynd að veggljósinu Lucio og hitti þar viðskiptafræðinginn Guðbjörgu Jóhannsdóttur.

Að Orkuverinu standa Innovit, Klak, Félag viðskipta- og hagfræðinga og Hönnunarmiðstöð Íslands. Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt verða að mæta með kynningu á sjálfum sér þar sem fram kemur menntun, fyrri reynsla og áhugasvið.

- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×