Innlent

Funduðu með Rögnu vegna hælisleitenda

Óvenjulegur fundur átti sér stað í dómsmálaráðuneytinu í morgun þegar þangað mættu hælisleitendur og stuðningsmenn þeirra til að ræða við ráðherra. Fundurinn var nokkuð tilfinningaþrunginn en fólkið krefst mannréttinda fyrir flóttamenn hér á landi.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, boðaði fólkið á sinn fund eftir að það mótmælti fyrir framan heimili hennar í Vesturbæ Reykjavíkur í gær. Um 30 manns mættu á fundinn í morgun þar á meðal fimm hælisleitendur sem vísa átti úr landi í síðustu viku. Þeirri aðgerð var hins vegar frestað að fyrirskipan dómsmálaráðherra.

Mennirnir fimm ávörpuðu ráðherra og óskuðu þess að fá að vera áfram hér á landi.

Mótmælendur segja að Útlendingastofnun misnoti reglur og alþjóðlega samninga til að firra sig ábyrgð á vanda flóttamanna. Nánast öllum flóttamönnum sem hingað koma sé vísað úr landi en í millitíðinni sé fólkið látið bíða milli vonar og ótta.

„Ég finn það líka eftir að hafa hitt þetta fólk að þetta hefur hræðileg áhrif á sálarlíf þeirra. Þau missa tímaskyn og þau geta ekki myndað félagsleg tengsl því þau vita ekki hvort þau verða hérna eftir viku eða ár upp á að kynnast fólki. Læra eitthvað og gera eitthvað við líf sitt," segir Bryndís Björgvinsdóttir.

Ragna sagðist eftir fundinn ætla að skoða málið en átti hins vegar ekki von laga- eða reglugerðarbreytingum á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×